Ferill 892. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2286  —  892. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um stýrihóp og sérfræðingateymi um heildarendurskoðun á örorkulífeyriskerfinu.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvers vegna á enginn öryrki eða fulltrúi frá ÖBÍ réttindasamtökum sæti í stýrihópi og sérfræðingateymi ríkisstjórnarinnar um heildarendurskoðun á örorkulífeyriskerfinu?
    
    Í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er lögð rík áhersla á að málefni örorkulífeyrisþega verði tekin til endurskoðunar á kjörtímabilinu með það að markmiði að bæta lífskjör og lífsgæði einstaklinga með mismikla starfsgetu. Sérstaklega verði horft til þess að bæta afkomu og möguleika til virkni, menntunar og atvinnuþátttöku á eigin forsendum. Þá er einnig sett fram það markmið að einstaklingum sem missa starfsgetuna verði í auknum mæli tryggð þjónusta og stuðningur strax á fyrstu stigum með tilliti til líkamlegra, sálfræðilegra og félagslegra þátta sem hafa áhrif á starfsgetu og möguleika til atvinnuþátttöku. Þannig verði einnig unnið markvisst að því að fjölga sveigjanlegum störfum og hlutastörfum í samvinnu ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs.
    Á fundi ríkisstjórnarinnar 11. mars 2022 var samþykkt tillaga félags- og vinnumarkaðsráðherra um að skipa stýrihóp ráðuneyta sem hefði það hlutverk að hafa yfirsýn yfir endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu í samræmi við áherslur í fyrrnefndum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Í kjölfarið var skipaður stýrihópur forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis, undir stjórn félags- og vinnumarkaðsráðuneytis. Einnig var skipað sérfræðingateymi með fulltrúum félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis sem falið var það hlutverk að vinna að undirbúningi, útfærslu og innleiðingu á fyrirhuguðum breytingum á greiðslu- og þjónustukerfi almannatrygginga ætlað einstaklingum vegna örorku og tímabundins starfsgetumissis, meðal annars með því að útfæra tímasettar aðgerðir þannig að unnt yrði að innleiða framangreindar breytingar í áföngum. Þá var ákveðið að vinnan skyldi grundvölluð á tillögum faghóps um nýtt kerfi starfsendurhæfingar og mats á starfsgetu (febrúar 2019) og starfshóps um breytt framfærslukerfi almannatrygginga vegna skertrar starfsgetu (maí 2019). Fyrri hópurinn var faghópur um starfsendurhæfingu og var skipaður sérfræðingum í starfsendurhæfingarmálum. Seinni hópurinn fjallaði um nýtt greiðslukerfi almannatrygginga og áttu bæði Öryrkjabandalag Íslands og Þroskahjálp fulltrúa í þeim hópi. Vinna við endurskoðunina hefur meðal annars byggst á þeim undirbúningi, áframhaldandi greiningum og skrifum frumvarpa. Þegar hafa þrjú frumvörp sem tengjast endurskoðuninni verið lögð fram á Alþingi og samþykkt. Við gerð þeirra frumvarpa var haft samráð á fyrri stigum frumvarpsgerða, meðal annars við ÖBÍ réttindasamtök, sem er umfram það samráð sem felst í samráðsgátt stjórnvalda. Á komandi þingvetri er ætlunin að leggja fram tvö frumvörp er tengjast heildarendurskoðuninni og hefur samráð við hagsmunasamtök örorkulífeyrisþega og fatlaðs fólks þegar átt sér stað og mun halda áfram.
    Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið leggur mikið upp úr samstarfi við hagsmunasamtök fatlaðs fólk í yfirstandandi vinnu, bæði við endurskoðun örorkulífeyriskerfisins sem og önnur málefni er tengjast málaflokki fatlaðs fólks, svo sem við gerð landsáætlunar um innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem einnig stendur yfir. Þá á ráðherra reglulega fundi með ÖBÍ réttindasamtökum, á um sex vikna fresti að jafnaði, þar sem heildarendurskoðun örorkulífeyriskerfisins hefur verið fastur liður á dagskrá frá því að sú vinna hófst.
    Loks er rétt að árétta að samhliða heildarendurskoðun örorkulífeyriskerfisins er unnið að nýrri stefnu fyrir íslenskan vinnumarkað þar sem áhersla er lögð á velferð, að fyrirbyggja ótímabært brotthvarf af vinnumarkaði, og inngildingu, til að tryggja öllum sem geta og vilja vinna mannsæmandi störf og jöfn tækifæri til vinnu. Í því samhengi skipaði félags- og vinnumarkaðsráðherra í fyrra samhæfingarnefnd um velferð og virkni á vinnumarkaði en stefnumótunarvinnan er liður í heildarendurskoðun kerfisins og er unnin í víðtæku samráði þar sem í nefndinni eiga sæti fulltrúar stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og hagsmunasamtaka fatlaðs fólks.